Þingið greiði atkvæði um veru erlendra hersveita í Írak

Suður-kóreskur hermaður í Bagdad.
Suður-kóreskur hermaður í Bagdad. Reuters

Breskir þingmenn segja málamiðlun hafi náðst varðandi veru erlendra hersveita, annarra en bandarískra, í Írak. Þeir segja að íraska þingið muni fá að greiða atkvæði um ályktun sem fjallar um það hvort hersveitirnar fái að vera í landinu áfram.

Íraska þingið hafnaði í gær lagafrumvarpi sem gerir um 6000 erlendum hermönnum kleift að vera áfram í landinu þegar umboð Sameinuðu þjóðanna rennur út þann 31. desember nk.

Ályktunin myndi gera ríkisstjórn Íraks kleift að gera tvíhliða samning við þau ríki sem hafa verið með her í landinu.

Um 140.000 manna lið Bandaríkjahers fær að vera í landinu til loka árs 2011, skv. sérsamningi sem hefur verið gerður.

John Hutton, varnarmálaráðherra Bretlands, segir málið vera „minniháttar hiksta“, en hann kveðst vera viss um það að menn muni komast að samkomulagi.

Bresk stjórnvöld hafa þegar greint frá því að þau hyggist draga allt herliðið frá Írak fyrir júlílok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert