Níu ára ekki sakhæfur

Ósakhæfi drengsins gæti komið í veg fyrir fangelsisdóm.
Ósakhæfi drengsins gæti komið í veg fyrir fangelsisdóm. Reuters

Sálfræðingur telur níu ára bandarískan dreng sem myrti föður sinn ósakhæfan. Telur hann aldur drengsins og vitsmuni koma í veg fyrir að hann skilji ákærur um skipulagt morð á hendur sér. Sérfræðingurinn telur einnig að ekki verði hægt að lýsa hann sakhæfan innan þess frests sem lög um slíkt leyfa.

Drengurinn er sakaður um að hafa skotið föður sinn og annan mann með riffli í nóvember síðastliðnum á heimili fjölskyldunnar í St. Johns í Arisona í Bandaríkjunum. Drengurinn hélt skrár yfir þær líkamlegu refsingar sem faðir hans beitti hans og lofaði sjálfum sér því að þegar eftir þúsundustu refsinguna myndi hann rísa gegn föðurnum.

Drengurinn sagði lögreglu, að hann hefði fengið flengingu daginn áður en hann skaut föður sinn. Ástæðan var sú að hann lauk ekki heimanáminu.

Úrskurði dómari að drengurinn sé ósakhæfur og ófær um að verða sakhæfur innan 240 daga er hægt að láta málið gegn honum falla niður. Verði sú raunin óttast saksóknarar að drengurinn muni aldrei fá þá meðferð sem hann þarf á að halda og að fórnarlömbin muni aldrei sjá réttlætinu fullnægt.

Drengurinn var átta ára þegar atvikið varð en verður níu ára á mánudaginn. Hann hefur dvalist í unglingafangelsi frá því hann var tekinn höndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert