Dönsk barnaverndaryfirvöld gagnrýnd

Dönsk félagmálayfirvöld sæta nú harðri gagnrýni vegna máls þrettán ára stúlku sem fjarlægð var af heimili sínu fjórum árum eftir að ábendingar fóru að berast til yfirvalda um bágan aðbúnað hennar. Dómur verður felldur í máli gegn móður stúlkunnar og stjúpföður í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Við réttarhöld yfir fólkinu hefur m.a. komið fram að þau hafi þrælað stúlkunni út, sent hana út í frost á þunnum náttkjól og látið hana grafa holur í garði fjölskyldunnar að nóttu til í hellirigningu.

Þá hafi nágrannar heyrt hana æpa undan barsmíðum. „Ég heyrði hana æpa og gráta þegar hún var barin. Í dag iðrast ég þess að hafa ekki stokkið yfir grindverkið og tekið foreldrana í gegn,” segir einn nágrannanna Palle Bay Andersen. „Þess í stað hringdi ég til yfirvalda."

Ekki er talið að fólkið eigi við áfengis- eða fíkniefnavandamál að stríða. Fram hefur komið við réttarhöld í málinu að aðstæður stúlkunnar hafi versnað til muna er stjúpfaðirinn flutti inn til hennar og móður hennar er hún var níu ára gömul.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert