Ísraelar sagðir brjóta mannréttindalög

Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu.
Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu. Reuters

Belginn Louis Michel, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir í blaðaviðtali í dag að Ísraelsmenn brjóti gegn alþjóðlegum mannréttindalögum á Gasasvæðinu en þeir veiti óbreyttum borgurum þar ekki næga vernd.

„Gögnin, sem sérfræðingar eru sammála um og fordæma, sýna að Ísrael virðir ekki alþjóðleg mannréttindalög," segir Michel í samtali við blaðið La Libre Belgique í dag en hann fer með mannúðarmál í framkvæmdastjórninni. 

„Fyrsta skylda hernámsliðs er að vernda íbúanna, verja þá, fæða þá og sjá um þá. Það er augljóslega ekki gert á Gasa og það sætti ég mig ekki við," segir Michel. „Það er enn erfiðara að sætta sig við þetta þar sem lýðræðisríki á í hlut."

Talið er að yfir 900 Palestínumenn hafi látið lífið á Gasasvæðinu frá því Ísraelsmenn hófu þar hernaðaraðgerðir fyrir 18 dögum. Harðir bardagar voru í morgun milli Hamasliða og Ísraelshers á götum Gasaborgar.

Evrópusambandið ákvað í desember að auka samvinnu við Ísrael og Michel virðist með ummælum sínum lýsa andstöðu við þá ákvörðun. „Við verðum að gæta þess að nota ekki tæki, sem gætu styrkt stöðu annars aðilans og gefið til kynna að við getum ekki sýnt hlutleysi," segir Michel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert