Færri sækja Bretland heim

Kreppan kemur hart niður á ferðaþjónustu Breta samkvæmt tölum bresku hagstofunnar. Ferðamönnum til Bretlands á tímabilinu september til nóvember 2008 fækkaði um 5% miðað við sama tímabil árið 2007. Þá fækkaði utanlandsferðum Breta um 6% á tímabilinu september til nóvember í fyrra borið saman við sama tímabil árið 2007.

Samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar heimsóttu 7,6 milljónir ferðamanna Bretland í september, október og nóvember síðastliðnum og 16,4 milljónir Breta fóru til útlanda á sama tímabili.

Fyrstu 11 mánuði ársins heimsóttu 32,4 milljónir ferðmanna Bretland sem er um 1% samdráttur miðað við fyrstu 11 mánuði ársins 2007.

Ferðamönnum frá Bandaríkjunum fækkaði mest eða um 12%, þrátt fyrir að pundið hafi veikst mjög gagnvart dollar á síðasta ári.

Christopher Rodrigues, stjórnarformaður breska ferðamálaráðsins vill að stjórnvöld fjármagni herferð til að blása lífi í greinina. Hann segir nauðsynlegt að minna íbúa Bandaríkjanna og Evrópusambandslandanna á verðlag í Bretlandi og hvetja þá sem á annað borð hyggja á ferðalög á að heimsækja Bretland.

„Hvað svo sem tölurnar fyrir desember leiða í ljós, þá liggur fyrir að árið 2008 reyndist breskri ferðaþjónustu erfitt og við gætum séð enn frekari samdrátt á þessu ári með uppsögnum í greininni,“ segir Christopher Rodrigues, stjórnarformaður breska ferðamálaráðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert