Herstöðvar í Mogadishu á valdi uppreisnarmanna

Götumynd frá Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í dag.
Götumynd frá Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í dag. AP

Síðustu eþíópísku hermennirnir hafa nú yfirgefið Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, tveimur árum eftir að þeir tóku þátt í að hrekja stjórn íslamista frá völdum í landinu. Samkvæmt upplýsingum fréttamanns BBC í borginni hafa ólíkir hópar uppreisnarmanna þegar lagt undir sig sex af átta herstöðvum þeirra í borginni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Stjórnarher bráðabrigðastjórnarinnar í landinu hefur tvær herstöðvanna á sínu valdi.

Nur Hassan Hussein, forsætisráðherra landsins, hvatti í morgun til friðar í landinu en margir óttast að við brotthvarf eþíópísku herdeildanna myndist tómarúm sem andstæðar fylkingar muni berjast um að nýta sér. Aðrir telja að við það geti loks  myndast samtaða og stuðningur við bráðabrigðastjórnina í landinu, sem til þessa hafi liðið fyrir tengsl sín við eþíópíska herliðið. 

Hussein lýsti því jafnframt yfir að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér í embætti forseta landsins en Abdullahi Yusuf, forseti landsins, sagði af sér í síðasta mánuði eftir deilur við Hussein um friðarviðræður við íslamista.

Fámennt friðargæslulið Afríkusambandsins er í Mogadishu en það er ekki talið hafa neina burði til að standa gegn uppreisnarmönnum leggi þeir til atlögu við stjórnarherinn.  

Yfirvöld í Úganda, Búrúndí og Nígeríu hafa lýst yfir vilja til að senda friðargæsluliða til Sómalíu en Afríkusambandið hefur ekki fjárhagslega burði til að þiggja boð þeirra. 

Kjörin stjórn hefur ekki farið með völd í Sómalíu frá árinu 1991 en bráðabrigðastjórn, sem naut stuðnings Vesturlanda, tók við völdum þar eftir að eþíópískar hersveitir hröktu íslamista frá völdum í landinu fyrir tveimur árum. Sú stjórn er nú klofin og hafa ólíkir hópar íslamista og ættbálkahöfðingja náð hlutum landsins á sitt vald að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert