Útlegð Dalaí Lama verði minnst með hátíð

Dalai Lama, útlægur leiðtogi Tíbets.
Dalai Lama, útlægur leiðtogi Tíbets. Reuters

Kommúnistaflokkurinn í Tíbet hefur samþykkt að dagurinn sem markar sigur Kína yfir sjálfstæðishreyfingum í landinu fyrir 50 árum verði gerður að hátíðisdegi. Samkvæmt opinberum fjölmiðlum í Tíbet verður 28. mars kallaður „dagur frelsisins“ en á þessum degi árið 1959 flúði andlegur leiðtogi Tíbeta, Dalai Lama,  til Indlands í útlegð þegar kínverskar hersveitir réðust inn í höfuðborgina Lhasa.

Sama dag tilkynntu kínversk yfirvöld í Peking í ríkisstjórn Tíbet skyldi leyst upp og Tíbet væri undir stjórn kommúnista. Dagsetningin er því afar pólitískt viðkvæm og hafa baráttumenn fyrir sjálfstæði Tíbets gagnrýnt ákvörðunina, með þeim rökum að hún sé til þess eins gerð að auka á spennunni milli Kínverja og Tíbeta.

Kínversk yfirvöld halda því fram að Tíbet hafi alla tíð tilheyrt Kína og á nýja hátíðisdeginum sé rétt að fagna frelsun þeirra milljóna sem hafi verið í þrældómi Búddista. Tíbetar segja sjálfir að landið þeirra hafi verið að mestu leyti sjálfstætt öldum saman og með þessu sé haldið áfram aumum tilraunum til að ritskoða og endurrita söguna.

Þessi ákvörðun kommúnistaflokksins er talin lituð ótta við frekari óeirðir í Tíbet á þessu ári, en þann 14. mars í fyrra urðu blóðugar óeirðir í Lhasa sem gátu af sér stærstu mótmæli stjórnarandstæðinga í áratugi. Hún endurspeglar einnig ólíka túlkun Kínverja og Tíbeta á sögulegum atburðum og endurtekna rægingarherferð Kínverja gegn Dalai Lama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert