Hálfbróðir Obama handtekinn

George Obama
George Obama David McKenzie/CNN

Hálfbróðir nýkjörins Bandaríkjaforseta, George Obama, hefur verið handtekinn af lögreglu í Kenía fyrir ólöglega vörslu kannabisefna. Hans bíður einnig kæra fyrir mótþróa við handtöku, að sögn lögreglu. George Obama, sem er 26 ára, er sagður búa við mikla fátækt í úthverfi Naírobí.

Fjölmiðlar höfðu uppi á honum á meðan kosningabaráttu bróður hans stóð í ágúst í fyrra, en fram að því hafði hann notið lítillar athygli og ekki verið meðvitaður um frægð bróður síns. Hann er nú í haldi lögreglu í höfuðborginni Nairobí en mætir fyrir rétt á mánudag. Í samtali við fréttamann CNN neitaði George Obama ásökunum og sagðist hafa verið handtekinn af engri ástæðu á heimili sínu.

George og Barack Obama þekkjast nánast ekkert þótt þeir hafi einu sinni hist, þegar sá síðarnefndi fór til Kenía til að hafa uppi á ættmennum sínum. Bræðurnir eiga sama föður en ólust hvorugur upp með honum, því Barack Obama eldri yfirgaf  fyrri barnsmóður sína þegar forsetinn var á barnsaldri, og lést svo í bílslysi þegar George var aðeins 6 mánaða.

Ítalska útgáfa Vanity Fair fullyrti í fyrra að George byggi í kofaræksni fyrir minna en dollara á dag og að hann hefði sagt bróður sinn skammast sín fyrir fátæka ættingja sína í Afríku. George harðneitar þessu nú, segist hafa alist upp við ágætiskjör og tímaritið hafi dregið upp ranga mynd af honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert