Vinna á hnetuofnæmi

Þeir sem þjást af hnetuofnæmi sjá nú fram á bjartari tíma. Læknar við Cambridge Addenbrooke sjúkrahúsið í Bretlandi hafa þróað aðferð til að draga úr ofnæmisáhrifum hnetanna. Þetta er í fyrsta sinn sem tekst að milda áhrif fæðuofnæmis með svo afgerandi hætti.

Læknar við Cambridge Addenbrooke sjúkrahúsið gerðu tilraunir með fjögur börn sem öll þjást af alvarlegu hnetuofnæmi. Börnin voru látin taka inn hnetuduft í smáum skömmtum sem síðan voru auknir. Fyrst um sinn tóku börnin inn 5 milligrömm af duftinu á dag en eftir sex mánuði voru skammtarnir komnir í 800 milligrömm á dag en það jafngildir fimm hnetum. Þol barnanna gegn efnum í hnetunum jókst því jafnt og þétt.

Hnetuofnæmi hrjáir  eitt af hverjum 50 börnum í Bretlandi. Ofnæmið veldur öndunarerfiðleikum en í verstu tilvikum fer sjúklingur í lost og getur verið í lífshættu. Jafnvel minnsta snerting við hnetur eða afurðir unnar úr hnetum getur kallað fram ofnæmisviðbrögð.

Kate Frost, móðir níu ára drengs sem tók þátt í tilrauninni, segir ekki hægt að lýsa breytingunni.

„Hnetuofnæmi drengsins hefur haft áhrif á líf allrar fjölskyldunnar. Við höfum ekki getað farið á veitingastaði. Ef hann hefur farið í afmælisveislur hef ég þurft að senda hann með nesti,“ segir Frost. 

Svipuðum aðferðum hefur verið beitt í baráttu við ofnæmi gegn býflugna- og vespubitum en aldrei fyrr hafa læknar náð slíkum árangri í baráttu við fæðuofnæmi. Fyrri tæpum tveimur áratugum voru gerðar tilraunir með að sprauta ofnæmisvaldinum í smáskömmtum í sjúklinga en árangurinn af því varð enginn.

Dr. Andy Clark, sem stýrði rannsókninni, segir að þeir sem þjást af hnetuofnæmi, lifi í stöðugum ótta um líf sitt.

„Markmið okkar var að þróa meðferð sem gerði sjúklingunum kleift að borða það sem þá lysti, án þess að óttast um líf sitt. Við vildum bæta lífsgæði sjúklinganna,“ segir Dr. Clark.

Hann segir að ekki sé um eiginlega lækningu að ræða heldur megi með þessu móti halda sjúkdómnum niðri en þá verði sjúklingarnir að taka skammtinn af hnetuduftinu daglega til að viðhalda þolinu.

Læknarnir segja að frekari rannsókna sé þörf. Ætlunin er að gera tilraunir á nýjum hópi barna og í framhaldi af því fullorðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert