Skotárás á Amager

Mikil spenna virðist nú vera milli danskra mótorhjólagengja og glæpahópa …
Mikil spenna virðist nú vera milli danskra mótorhjólagengja og glæpahópa innflytjenda. mbl.is/Brynjar Gauti

Einn lést og þrír særðust í skotárás á veitingastað í Amager í Kaupmannahöfn skömmu eftir miðnætti í nótt. Leitar danska lögreglan nú tveggja manna vegna árásarinnar.

Skotárásin átt sér stað á veitingastaðnum Café Vaaren á Backersvej í Amager laust upp úr kl. eitt í nótt. Skotið var á einn fyrir utan veitingastaðinn en á hina þrjá inni á staðnum. Lögreglan hafði að sögn Berlingske Tidende ekki enn borið kennsl á hinn látna nú snemma í morgun.

Danska lögreglan getur ekki gefið upp hvort árásin tengist stigvaxandi deilum mótorhjólagengja og glæpahópa innflytjenda.

„Við vinnum af fullum krafti, en ég get ekki gefið mikið upp núna,“ hefur blaðið eftir  Tommy Keil, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar. Þeir lýsi hins vegar eftir tveimur einstaklingum sem sáust hlaupa á brott frá veitingastaðnum.

Að sögn Berlingske Tidende sækja liðsmenn AK81, stuðningsmenn Hells Angells mótorhjólagengisins Cafe Våren.

Hefur lögreglan í Kaupmannahöfn boðað til fundar í dag þar sem ræða á hvernig taka eigi á ofbeldisverkum og draga úr spennu tengdu uppgjöri mótorhjólagengja og glæpahópa innflytjenda í Nørrebro hverfinu.

Á föstudag var íraskur maður skotinn til bana í Mjølnergarðinum á Nørrebro og á laugardag var skotið á Færeying sem leitaði bílastæðis á Blågårdsgade-svæðinu.  Hvorugur hafði nokkur tengsl við hina deilandi hópa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert