Óttast áhrif Liebermans

Avigdor Lieberman, formaður ísraelska hægriflokksins Yisrael Beiteinu.
Avigdor Lieberman, formaður ísraelska hægriflokksins Yisrael Beiteinu. Reuters

Mikil andstaða er sögð við það meðal ráðamanna í Bandaríkjunum og Evrópu  að Avigdor Lieberman, formaður ísraelska hægriflokksins Yisrael Beiteinu, verði utanríkisráðherra landsins, líkt og allt virðist nú stefna í. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Er jafnvel talið að skipan hans í embættið muni draga mjög úr samskiptum ríkisstjórnar Benjamins Netanyahu, formanna Likudflokksins við Vesturlönd.  

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa lýst því yfir að þau muni vinna með hvaða stjórn sem mynduð verður í Ísrael en líkleg aðkoma Liebermans er þó sögð valda þeim miklum áhyggjum.  

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa líkt Lieberman við austurríska hægrimanninn Jörg Haider og Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta.  Lieberman hefur m.a. barist gegn auknum réttindum araba í Ísrael og lýst sig andvígan friðarumleitunum Ísraela við Sýrlendinga. Þá hefur hann hvatt til þess að Ísraelar beiti sömu hernaðaraðferðum á Gasasvæðinu og Rússar hafi beitt í Tsjetsníu. 

Yfirvöld í Arabaríkjunum hafa ekki tjáð sig opinberlega um hugsanlega skipan hans í embættið en yfirvöld í Jórdaníu og Egyptalandi, sem hafa mest samskipti við Ísraela, eru sögð hafa miklar áhyggjur af málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert