„Tíbetar búa við helvíti á jörðu"

Dalai Lama, útlægur leiðtogi Tíbets.
Dalai Lama, útlægur leiðtogi Tíbets. Reuters

Útlægur andlegur leiðtogi Tíbeta, Dalai Lama, var harðorður í garð kínverskra stjórnvalda í dag en fimmtíu ár eru síðan hann fór í útlegð. Segir Dalai Lama að líf Tíbeta sé helvíti á jörðu. Segir hann að fimm áratugir undir kínverskum yfirráðum hafi kostað ómældar þjáningar Tíbeta. Ásakaði hann kínversk stjórnvöld um að skapa landslag ótta meðal fólks.

Ítrekaði hann kröfur sínar um sjálfstæði Tíbets en í dag eru fimmtíu ár liðin frá því að uppreisn íbúa Tíbets var hrundið á bak aftur af kínverska hernum. Kínverjar segja hins vegar að þeir hafi frelsað Tíbeta frá þrældómi og ætla að halda 28. mars hátíðlegan en þá eru liðin fimmtíu ár frá því að kínversk stjórnvöld leystu stjórn Tíbets frá völdum.

Kínverska lögreglan vísaði í dag fréttamönnum AFP fréttastofunnar frá Tíbet en fréttamennirnir fylgdust með atburðum dagsins á útlagaafmæli Dalai Lama. Gríðarleg öryggisgæsla er í Tíbet í dag. Höfðu fréttamennirnir heimsótt búddaklaustur í Qinghai héraði en þar brutust út mótmæli gegn kínverskum stjórnvöldum í fyrra. Erlendum fréttamönnum er meinað að ferðast á eigin vegum um Tíbet.

Von er á Dalai Lama til Íslands í júní þar sem hann mun flytja erindi í Laugardalshöll. Síðar í dag ætla Vinir Tíbets að koma saman fyrir utan kínverska sendiráðið að Víðimel í Reykjavík í dag og mótmæla yfirráður Kínverja yfir Tíbet.

RUPAK DE CHOWDHURI
Jim Young
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert