Afstaða Tyrkja skaðar umsókn þeirra um ESB-aðild

Leiðtogar NATO á brú yfir Rín í morgun. Össur Skarphéðinsson, …
Leiðtogar NATO á brú yfir Rín í morgun. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, er á myndinni milli Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna. Reuters

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði við finnska sjónvarpið í morgun, að sú afstaða Tyrkja að beita sér gegn því að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, verði næsti framkvæmdastjóri NATO, skaði umsóknarferli Tyrkja hjá ESB.

„Ég verð að segja, að Tyrkir gera mistök með því að styðja ekki og viðurkenna ekki þá breiðu samstöðu, sem myndast hefur meðal evrópskra þjóðarleiðtoga um Anders Fogh Rasmussen," sagði Rehn.  „Þetta mun án efa leiða til spurninga hjá aðildarríkjum og borgurum Evrópusambandsins um hvort Tyrkir hafi tileinkað sér evrópsk gildi á borð við málfrelsi," sagði hann. 

Tyrkir benda m.a. á að Fogh Rasmussen hafi aldrei beðist afsökunar á skopmyndamálinu svonefnda sem snérist um skopmyndir af Múhameð spámanni, sem birtust í Jyllands-Posten. Danski forsætisráðherrann hefur vísað til þess að í Danmörku ríki virðing fyrir málfrelsi.
 
Elmar Brok, sem situr á Evrópuþinginu fyrir Kristilega demókrata, sagði í morgun, að með afstöðu sinni hafi Tyrkir endanlega lýst sig vanhæfa til að vera aðilar að Evrópusambandinu. 

„Hugsunarhátturinn í Tyrklandi er allt annar. Ef við viðurkennum hann gætum við allt eins lokað sjoppunni," hefur fréttastofan DPA eftir honum.
Brok ráðleggur NATO að þrýsta á Tyrki og hugsanlega óska eftir því að Jaap de Hoop Scheffer sitji í eitt ár í viðbót í embætti framkvæmdastjóra NATO. Scheffer mun að óbreyttu hætta í júlí.

Leiðtogar NATO á brú yfir Rín í morgun.
Leiðtogar NATO á brú yfir Rín í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert