Rasmussen verður framkvæmdastjóri NATO

Anders Fogh Rasmussen og Jaap de Hoop Scheffer á blaðamannafundi …
Anders Fogh Rasmussen og Jaap de Hoop Scheffer á blaðamannafundi í Strassborg í dag. Reuters

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO. Tyrkir hafa látið af andstöðu sinni við að hann taki við af Hollendingnum Jaap de Hoop Scheffer, sem lætur af embætti í sumar.

Jaap de Hoop Scheffer tilkynnti niðurstöðuna á blaðamannafundi í dag, ásamt Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

„Það eru allir sannfærðir um að Rasmussen er besti kosturinn í embætti framkvæmdastjóra NATO,“ sagði Schaffer á blaðamannafundinum. Hann viðurkenndi að erfitt hefði reynst að ná niðurstöðu en nú hefði hún fengist.

Anders Fogh Rasmussen sagði það mikinn heiður að verða fyrsti Daninn til að gegna embættinu og ekki spillti fyrir að hann tæki við á þessum tímamótum, þegar NATO fagnaði 60 ára afmæli. Rasmussen tekur við 1. ágúst í sumar.

Tyrkir voru andvígir því frá upphafi að Rasmussen tæki við NATO en andstöðuna má rekja til Múhameðsteikninganna svonefndu, sem birtust í Jótlandspóstinum árið 2005. Tyrkjum þótti Rasmusen ekki hafa tekið á málinu af nægilegri festu, auk þess sem þeir hafa ítrekað krafist þess að Danir loki sjónvarpsstöð Kúrda í Danmörku. Fogh Rasmussen sagði hins vegar, að frelsi fjölmiðla væri ekki samningsatriði.

Samkvæmt fréttum AFP var það Barack Obama forseti Bandaríkjanna sem sannfærði Tyrki um að Rasmussen væri réttur maður í embætti framkvæmdastjóra NATO og fékk þá ofan af því að beita neitunarvaldi sínu. Sagði Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði að Tyrkir hefðu fallið frá andstöðu sinni eftir að hafa fengið „tryggingar" frá Obama.

Lars Løkke Rasmussen tekur við

Rasmussen, sem er 56 ára, er leiðtogi Venstre. Gert er ráð fyrir að Lars Løkke Rasmussen, varaformaður Venstre, taki við sem forsætisráðherra Danmerkur þótt einnig hafi komið upp kröfur um að boðað verði til þingkosninga léti Fogh Rasmussen af embætti.

Fogh Rasmussen var á sínum tíma dyggur stuðningsmaður Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta en þeir áttu samtals átta sinnum fundi á meðan Bush var forseti. Hann studdi m.a. innrásina í Írak og sendi herlið þangað.

Fogh Rasmussen talar ensku og frönsku. Hann þykir hafa til að bera mikla persónutöfra en er einnig harður og slyngur samningamaður. Þá er hann sagður afar vel skipulagiður og hafa mikla sjálfsstjórn. Hann er giftur og tveggja barna faðir og fyrsta barnabarnið kom í heiminn fyrir hálfum mánuði. Hann heldur sér í líkamlegu formi með því að renna sér á skíðum, skokka og sigla.

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítala, sagði eitt sinn, að Fogh Rasmussen væri myndarlegasti forsætisráðherra Evrópu. 

Hjónin Anne-Mette og Anders Fogh Rasmussen í Strassborg.
Hjónin Anne-Mette og Anders Fogh Rasmussen í Strassborg. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert