Konur í skugga öfga

Frá mótmælum kvenna í Kabúl í Afganistan þann 15. apríl …
Frá mótmælum kvenna í Kabúl í Afganistan þann 15. apríl sl. Reuters

Ekki er langt síðan falli talibanastjórnarinnar í Afganistan var fagnað víða um heim. Talibanar höfðu haldið Afgönum í greipum ógnar og ofstækis, sem sérstaklega beindist gegn konum, en þeir misstu fljótt völdin eftir að George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, réðst inn í landið. Boðaðir voru tímar uppbyggingar og lýðræðis. Nú skyldu konur geta um frjálst höfuð strokið, gengið menntaveginn og fengið langþráð frelsi.

Ekki er langt síðan við blasti að kona yrði á ný forseti Pakistans. Sú sýn var úti þegar Benazir Bhutto var myrt í tilræði skömmu eftir að hún sneri aftur til Pakistans úr sjálfskipaðri útlegð.

Nú eru talibanar í sókn í báðum þessum löndum. Fyrir viku réðust fjórir talibanar á Sitara Achikzai, þýsk-afganska konu, sem barist hefur fyrir réttindum kvenna í Afganistan, fyrir utan heimili hennar í borginni Kandahar og myrtu hana. Iðulega er veist að stúlkum, sem ganga í skóla, og eru mörg dæmi þess að sýru hafi verið skvett á skólastúlkur. Nýlega undirritaði Hamid Karzai, forseti Afganistans, lög sem aðeins taka til minnihluta sjíta og leyfa í raun nauðgun í hjónabandi, kveða á um að giftar konur þurfi leyfi eiginmanna sinna til að vinna utan heimilis eða sækja skóla og banna konum að neita að „hafa sig til“ fari eiginmenn þeirra fram á það. Sjítar eru um 20% Afgana og sættu grimmilegum ofsóknum í valdatíð talibana.

„Hypjið ykkur, hórurnar ykkar“

Þegar um 300 konur sýndu það hugrekki að mótmæla setningu laganna í Kabúl um miðja liðna viku mætti þeim þrefalt stærri hópur, sem jós yfir þær formælingum á borð við „Hypjið ykkur, hórurnar ykkar“, hrækti á þær og grýtti.

„Ef karlmaður vill kynmök getum við ekki neitað,“ var haft eftir Fatimu Husseini, sem var meðal kvennanna í mótmælagöngunni. „Það þýðir að konur eru eins konar eign, sem karlar geta notað eins og þeim sýnist.“

Á mánudag undirritaði Azif Ali Zardari, forseti Pakistans og ekkill Bhutto, lög um innleiðingu íslamsks réttar, sharía, í Swat-dal, sem er í héruðunum, sem liggja að landamærum Afganistans. Undirritun laganna var reyndar aðeins staðfesting á orðnum hlut. Því bar vitni myndskeið, sem barst til fjölmiðla í byrjun mánaðar og sýndi hvar ung stúlka á táningsaldri var hýdd á almannafæri. Ekki er vitað fyrir víst hvað stúlkan átti að hafa til saka unnið, en hermt er að hún hafi hafnað bónorði vígamanns úr röðum talibana og hann hafi vænt hana um siðleysi. Á öðru myndskeiði, sem sýnt hefur verið í fjölmiðlum, sést hvar maður er hýddur opinberlega vegna samkynhneigðar.

Bókstafstrúarmenn í Pakistan fara fram í krafti ógnar, en þeir hafa einnig nýtt sér gjánna milli yfir og undirstétta í landinu til að ala á óeiningu. Í Pakistan hefur í raun ríkt lénsskipulag til sveita og nú hrekja talibanar burt þá sem ráðið hafa landinu, iðulega í krafti spillingar, og veifa góssinu sem eftir verður framan í bændur um leið og þeir gera þá að liðsmönnum sínum. Fréttaskýrendur telja að þessi aðferð gæti jafnvel orðið til þess að valdastétt landsins verði sópað burt.

Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt lagasetninguna í Pakistan og segja að hún verði vatn á myllu talibana og hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, sem hafa átt griðastað í norðvesturhéruðum Pakistans. Verði sókninni á hendur talibönum í Pakistan hætt muni þeir fá næði til að veita talibönum í Afganistan liðsinni einmitt þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst senda 17 þúsund manna liðsauka þangað til að efla sóknina gegn þeim.

Meira að segja er hermt að talibanar í Afganistan hafi sent samningamenn til Pakistans ekki alls fyrir löngu til þess að falast eftir stuðningi þeirra og aðstoð í baráttunni gegn stjórn landsins og herliðinu, sem er í Afganistan undir merkjum Atlantshafsbandalagsins.

Obama ætlar hins vegar ekki aðeins að beita valdi í Afganistan, heldur hyggst einnig freista þess að ná til hófsamra talibana og reyna að kljúfa þá frá harðlínumönnum, sem styðja al-Qaeda. Spurningin er hins vegar hvort Bandaríkjamenn eru þar með tilbúnir að kyngja því réttarfari, sem talibanar vilja koma á.

Sú niðurstaða væri ekki beinlínis í anda þeirra markmiða, sem lýst var yfir þegar ráðist var inn í Afganistan og stjórn talibana steypt af stóli.

Íslamskur réttur

Sharia merkir bókstaflega stígurinn sem liggur að vatnsbólinu. Sharia er hið íslamska réttarkerfi og var farið að styðjast við það kerfisbundið á áttundu og níundu öld eftir Krist eða annarri og þriðju öld samkvæmt tímatali múslíma. Sharia á að leiðbeina múslímum um það hvernig þeir eigi að lifa lífi sínu í samræmi við trú sína í þessu lífi og öðlast vegsemd í öðru lífi.

Öndvert við vestræna lagahefð snýst sharia ekki aðeins um samskipti ríkisins við borgarana og samskipti manna í millum heldur einnig siðferði einstaklingsins og breytni.

Sharia byggist á guðlegum vilja, sem komið var á framfæri við spámanninn Múhameð. Eftir andlát hans 632 rofnuðu samskiptin við almættið og lögin hafa síðan þá verið óumbreytanleg, sem skapar vandamál eftir því sem samfélög breytast og þróast. Í Tyrklandi sáu menn árið 1926 ekki annan kost en að snúa baki við sharia, en í öðrum múslímaríkjum hefur verið reynt að miðla málum og koma til móts við kröfur samtímans án þess að það stríði gegn grundvallarreglum sharia.

Nánar er hægt að lesa um mótmæli kvennanna og viðbrögð við þeim í sunnudagsblaði Morgunblaðisns. Þar er jafnframt að finna frekari upplýsingar um talibana og yfirráðasvæði þeirra.

Myndskeið þar sem sést er stúlkan var hýdd fyrr í mánuðinum

Reuters
Reuters
Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert