Frakkar: Óréttlætanlegur hatursáróður

Hans-Rudolf Merz, forseti Sviss, er hann tók á móti Ahmadinejad, …
Hans-Rudolf Merz, forseti Sviss, er hann tók á móti Ahmadinejad, í morgun. Pool

Yfirvöld í Frakklandi hafa fordæmt ræðu Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta á Durban II ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttafordóma í Genf í Sviss í dag. Segja þau ræðu hans hafa verið hatursáróður sem ekki sé með nokkrum hætti hægt að réttlæta.

„Forsetinn sem hefur þegar hafnað óásættanlegum yfirlýsing Íransforseta við önnur tækifæri fordæmir algerlega þessa hatursræðu," segir í yfirlýsingu frá skrifstofu Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta um málið. „Hann hvetur Evrópusambandið til að taka harða afstöðu í málinu."

Sendiherra Frakklands gekk, ásamt fulltrúum nokkurra annarra Evrópuþjóða, út af ráðstefnunni er Ahmadinejad Íransforseti sagði í ræðu sinni að stjórn kynþáttahaturs hefði verið mynduð í Miðausturlöndum.

Þrír fulltrúar Íslands sitja ráðstefnuna og gengu þeir ekki út.

Ástralar, Bandaríkjamenn, Hollendingar, Ísraelar, Ítalir, Kanadamenn, Nýsjálendingar og Þjóðverjar hættu við þátttöku í ráðstefnunni fyrir helgi. Ástæðan var bæði þátttaka Ahmadinejads og óánægja með lokauppkast að lokaskjali ráðstefnunnar.

Þá kölluðu Ísraelar sendiherra sinn í Sviss heim í dag eftir að Hans-Rudolf Merz, forseti Sviss, hitti Ahmadinejad í morgun. Hann hefur m.a. neitað því að Helför nasista gegn gyðingum hafi átt sér stað en minningardagur um Helförina er í Ísrael í dag.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert