Frestuðu samþykkt á ESB-lögum

Fáni Evrópusambandsins.
Fáni Evrópusambandsins. Reuters

Annar stjórnarflokkurinn á Íslandi kom í dag í veg fyrir að aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, auk ESB-ríkjanna eru það Ísland, Noregur og Liechtenstein, samþykktu ný lög frá Brussel um starfsemi á sviði þjónustu, þjónustutilskipunina svonefndu, að sögn vefsíðu Dagbladet í Noregi.

Málið kom upp á fundi sendiherra ríkjanna þriggja hjá ESB í Brussel. Blaðið segir að venjulega sé um formsatriði að ræða þegar  tekið sé fram að samþykktin taki þó ekki gildi fyrr en stjórnvöld hafi staðfest ákvörðun sendiherra. Sendiherra Íslands hafi verið búinn að veita sitt samþykki fyrir því að nýju lögin yrðu innlimuð í lög og reglur EES.

 En nokkrum klukkustundum síðar hafi komið boð frá Reykjavík, stjórnvöld á Íslandi hafi sagt nei, þau hafi viljað bíða eftir niðurstöðu Alþingiskosninganna á morgun.

 ,,Svona nokkuð hefur ekki gerst fyrr," segir sendiherra Noregs, Oda H. Sletnes, í samtali við Dagbladet. Hann segir þó að einu afleiðingarnar séu að samþykktin muni frestast fram á næsta fund sendiherranna. ,,Íslendingar voru ekki tilbúnir núna en en það hefur engar raunverulegar afleiðingar. Lögin taka gildi í árslok 2009."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert