Engar sannanir fyrir andlátinu

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. Reuters

Asif Ali Zardari, forseti Pakistans, sagði í dag að pakistanska leyniþjónustan telji að Osama bin Laden, leiðtogi Al-Quaeda sé ekki lengur lífs, en viðurkenndi að hún hafi engar sannanir fyrir því.

„Bandaríkjamennirnir segja mér að þeir viti það ekki, og þeir eru mun betur tækjum búnir en við til að hafa uppi á honum. Leyniþjónusta okkar telur augljóslega að hann sé ekki lengur til, að hann sé dáinn,“ sagði Zardari við fréttamenn. Hann undirstrikaði að engar sannanir séu fyrir því að bin Laden sé dáinn.

Með orðum sínum var Zardari að bregðast við fréttum af því að pakistanskir talíbanar í Swat-dalnum hafi sagst mundu bjóða bin Laden velkominn ef hann vildi heimsækja fyrrum dvalarstað sinn í pakistönsku hæðunum. Íslamistar ráða nú svæðinu. 

Robert Wood, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins í Washington, sagði að Bandaríkjamenn væru eknn að leita að bin Laden og teldu hann vera á lífi. „Ég hef ekki neinar upplýsingar sem gefa til kynna að Osama bin Laden sé... satt að segja dáinn eða lifandi,“ sagði Wood aðspurður um ummæli Zardaris.

Asif Ali Zardari forseti Pakistans.
Asif Ali Zardari forseti Pakistans. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert