Dómaraskipti í vændum í Bandaríkjunum

Bandaríski hæstaréttardómarinn David Souter er sagður vilja setjast í helgan stein þegar réttarhlé hefst í júní. Souter, sem er 69 ára, var skipaður af George H.W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, árið 1990, og þá álitinn fulltrúi íhaldssamra gilda. Hann reyndist hins vegar vera í hópi frjálslyndari dómara í réttinum. 

Að sögn bandarískra fjölmiðla hefur Souter tilkynnt Hvíta húsinu, að hann vilji hætta störfum. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig opinberlega um málið en ónafngreindur heimildarmaður sagði við blaðið Washington Post, að Joe Biden, varaforseti, hefði fengið það verkefni að búa til lista yfir hugsanleg dómaraefni.  Hugsanlegt er þó að ekki takist að skipa nýjan dómara áður en dómstóllinn hefur störf að nýju í október en Bandaríkjaþing þarf að staðfesta útnefningu dómara. 

Meðal þeirra, sem taldir eru koma til greina, eru Elena Kagan, núverandi ríkissaksóknari, Sonia Sotomauor, áfrýjunardómari og Diane Wood, alríkisdómari, sem kenndi við lagadeild Chicagoháskóla á sama tíma og Barack Obama, forseti. 

Bandarískir hæstaréttardómarar eru skipaðir ævilangt en geta hætt að eigin ósk. Elsti dómarinn í réttinum nú er John Paul Stevens, 89 ára.  Fullyrt er að Souter hafi aldrei unað sér almennilega í Washington og vilji flytja á ný til New Hampshire þar sem hann er  uppalinn. Áður en hann var skipaður hæstaréttardómari sat hann í áfrýjunardómstóli í New Hampshire. Fyrrum ríkisstjóri þar mælti mjög með Souter við Bush forseta og sagði að hann yrði happafengur fyrir íhaldsmenn. Svo reyndist ekki vera.

Vel er fylgst með breytingum á hæstarétti í Bandaríkjunum, ekki síst nú þar sem mörg umdeild mál munu væntanlega koma til hans kasta á næstu árum. Þar má nefna hjónabönd samkynhneigðra, fóstureyðingar, byssueign, dauðarefsing og friðhelgi einkalífs á netinu.

Ólíklegt er að nýr dómari muni breyta hugmyndafræðilegri stefnu réttarins þar sem Sauter hefur oftast tekið afstöðu með þeim þremur dómurum, sem aðhyllast frjálslyndar skoðanir. Þeir eru John Paul Stevens, Ruth Bader Ginsburg og Stephen Breyer. Þeir John Roberts, forseti dómsins, Antonin Scalia, Clarence Thomas og Samuel Alito skipa íhaldsarminn en Anthony Kennedy situr í miðjunni. Litið er á hann sem íhaldsmann, sem greiði þó stundum atkvæði með þeim frjálslyndu.


David Souter.
David Souter. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert