Færri dauðsföll í Mexíkó en óttast var

Lögregluþjónn á verði við inngang hótels í Hong Kong sem …
Lögregluþjónn á verði við inngang hótels í Hong Kong sem sett var í sóttkví eftir að mexíkóskur ferðamaður greindist með a-flensu H1N1. Reuters

Yfirvöld í Mexíkó segja nú að líklega hafi um 100 manns dáið af völdum svínaflensuveirunnar, eða a-flensu H1N1, en ekki 176 eins og óttast hafði verið.

Jose Angel Cordova, heilbrigðisráðherra Mexíkó, segir að dánartíðnin vegna nýja flensuafbrigðisins sé svipuð og vegna venjulegrar flensu sem berst á milli manna á hverju ári. Hann segir nú líklegt að 101 hafi dáið af völdum veirunnar en aðeins 16 dauðsfallanna hafa verið staðfest. Alls hafa 381 smittilfelli verið staðfest í Mexíkó.

Svínaflensuveiran hefur nú fundist í fólki í 17 löndum. Í fimm löndum utan Mexíkó hefur veiran borist á milli manna, þ.e. í fólk sem hefur ekki verið í Mexíkó. Þessi lönd eru Bandaríkin, Kanada, Spánn, Þýskaland og Bretland.

Fyrsta smittilfellið á Ítalíu var staðfest í dag. Ennfremur far skýrt frá því í dag að kona í Suður-Kóreu hefði reynst vera með a-flensu H1N1 og er það fyrsta staðfesta smittilfellið þar í landi.

Kínversk yfirvöld hafa gert ráðstafanir til að hefta útbreiðslu veirunnar eftir að mexíkóskur ferðamaður í Hong Kong reyndist vera með veiruna. Maðurinn hafði komið til borgarinnar frá Mexíkó með viðkomu í Sjanghæ. Farþegaflug frá Mexíkó til Sjanghæ var bannað tímabundið og nær 300 gestir og starfsmenn hótels ferðamannsins í Hong Kong voru settir í sóttkví.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert