Atlantis skotið út í geim

Geimferjunni Atlantis var skotið síðdegis á loft frá Kennedy-geimstöðinni í Flórída. Áhöfn geimferjunnar er ætlað að gera við Hubble-geimsjónaukann. Verkefnið þykir vera metnaðarfullt og áhættusamt.

Atlantis tókst á loft kl. 14:01 að staðartíma (kl. 18:01 að íslenskum tíma). Leiðangursstjórar hafa skipulagt mörg flókin verkefni og skipt þeim upp í fimm geimgöngur, að því er segir á vef BBC. Sjö bandarískir geimfarar eru um borð í geimferjunni.

Þar sem geimfararnir geta ekki leitað skjóls í geimstöð skapist neyðarástand þá verður önnur geimferja í viðbragðsstöðu, sem myndi sækja þá.

Yfirmenn bandarísku geimferðastofnunarinnar segja að áhættan og kostnaðurinn við ferðina verði vel þess virði takist geimförunum ætlunarverk sitt.

Gangi allt að óskum þá mun viðgerðin efla sjónaukann, sem er sagður vera eitt mikilvægasta vísindatæki sem hefur verið smíðað. Honum var skotið út í geim árið 1990.

Geimferjunni Atlantis var skotið út í geim kl. 18:01 að …
Geimferjunni Atlantis var skotið út í geim kl. 18:01 að íslenskum tíma. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert