Í dái eftir að hafa drukkið eitrað vín

Tæplega sextugur Norðmaður frá Arendal í Suður-Koregi er í dái eftir að hafa drukkið eitrað hvítvín. Að sögn fréttavefjar Aftenposten keypti maðurinn vínflöskuna í Svíþjóð. Ekki er vitað hvernig eitrið komst í flöskuna.

Haft er eftir lögreglu, að maðurinn hafi á laugardag opnað flösku af víninu San Valentin frá Torres á Spáni. Hann fékk sér einn sopa en fann strax að ekki var allt með felldu og spýtti víninu út úr sér. En eftir nokkrar mínútur fékk hann krampa og féll síðan í dá.  Hann var fluttur á sjúkrahús og var fyrst talinn í lífshættu en líðan hans er betri nú þótt hann sé enn meðvitundarlaus.

Lögreglan segir, að vínflaskan hafi verið keypt í Svíþjóð. Maðurinn ferðast mikið og því er talið hugsanlegt að flaskan hafi verið keypt á flugvelli eða í ferju.  

Verið er að efnagreina innihald flöskunnar en grunur leikur á, að blásýra hafi verið sett í vínið. Blásýra er afar fljótvirk og hefur lamandi áhrif á öndunarfærin.

Sænska áfengiseinkasalan, Systembolaget, fékk fyrir tveimur árum hótunarbréf þar sem fullyrt var að blásýra hefði verið sett í vín í áfengisverslunum. Ekki var talin ástæða til að taka þessar hótanir alvarlega og ekki er vitað til þess að nokkur hafi orðið fyrir eitrun í Svíþjóð.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka