N-Kóreumenn skjóta fleiri flugskeytum

Norður Kóreskir hermenn á varðsiglingu á Yalu-ánni við borgina Sinuiju …
Norður Kóreskir hermenn á varðsiglingu á Yalu-ánni við borgina Sinuiju í Norður-Kóreu. Reuters

Norður-Kóreumenn skutu skammdrægu flugskeyti á haf út frá Musudan-ni skotpallinum í austurhluta landsins í dag. Er það sjötta slíka flugskeytið sem þeir skjóta á loft frá því þeir sprengdu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni á mánudag.

Samkvæmt heimildum suður-kóresku Yonhap fréttastofunnar var skeytið af nýrri gerð flugskeyta sem skotið er frá landi og talið er drífa allt að 260 kílómetra.

Er það talið vera endurgerð sovéskra SA-5 flugskeyta sem Norður-Kóreumenn hafa notað frá árinu 1963.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar virðist Norður-Kóreumenn einnig vera að búa sig í að skjóta flugskeytum frá vesturströnd landsins.

 2.054 kjarnorkutilraunin

Yfirvöld í Norður-Kóreu lýstu því yfir í morgun að þau muni grípa til „sjálfsvarnaraðgerða” verði refsiaðgerðir vegna kjarnorkusprengingarinnar samþykktar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. 

„Ef öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ögrar okkur, verðum við að grípa til frekari sjálfsvarnaraðgerða,” segir í yfirlýsingu norður-kóreska utanríkisráðuneytisins. „Þolinmæði okkar er takmörkuð. Kjarnorkutilraunin sem þjóð okkar gerði að þessu sinni var 2.054 kjarnorkutilraunin sem gerð hefur verið á þessari jörð. Fimm fastafulltrúar öryggisráðsins hafa framkvæmt 99,99% allra kjarnorkutilrauna."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert