Flokki Browns spáð þriðja sæti

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi geldur mikið afhroð í kosningum til Evrópuþingsins í næstu viku og verður í þriðja sæti, samkvæmt nýrri skoðanakönnun breska dagblaðsins The Times.

Verkamannaflokknum er spáð  16% fylgi, Íhaldsflokknum 30% og Frjálslyndum demókrötum 12%. Flokkarnir þrír virðast hafa misst fylgi vegna frétta síðustu vikna um að margir þingmenn hafi misnotað rétt sinn til endurgreiðslna vegna kostnaðar við að reka tvö heimili.

Fylgi Sjálfstæðisflokks Bretlands (UKIP) hefur hins vegar aukist úr 6% í 19% frá því að hneykslismálin komu upp. Hann verður því í öðru sæti, ef marka má könnunina.

Verði Verkamannaflokkurinn í þriðja sæti er talið víst að ósigurinn leiði til mikillar umræðu um hvort Gordon Brown, forsætisráðherra og leiðtogi flokksins, eigi að segja af sér. Þingkosningarnar eiga að fara fram í Bretlandi innan árs.

Í kosningunum á fimmtudag til sunnudags í næstu viku verður kosið til Evrópuþingsins. Alls verða 736 fulltrúar 27 landa kjörnir á þingið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert