Eva Joly ber forseta Gabon ekki vel söguna

Omar Bongo.
Omar Bongo. AP

Eva Joly, sem er ráðgjafi sérstaks saksóknara hér á landi, gefur Omar Bongo, forseta Gabon, sem lést um helgina, ekki góð eftirmæli. Segir hún að Bongo hafi ekkert hugsað um þjóð sína en þess í stað gætt hagsmuna Frakka og franskra stjórnmálamanna.

Bongo lést á heilsuhæli á Spáni á sunnudag, 73 ára að aldri. Hann hafði þá verið forseti Gabon í 43 ár. Það embætti hlaut hann fyrir tilstilli Frakka og náin tengsl voru alla tíð síðan milli hans og franskra stjórnmálamanna.

Joly, sem um helgina var kjörin á Evrópuþingið fyrir franskan umhverfismálaflokk, lenti í útistöðum við Bongo þegar hún rannsakaði fjármálahneyksli í Frakklandi kennt við olíufélagið Elf.  Árið 1997 komst hún m.a. að raun um, að Elf hefði greitt forseta Gabon háar fjárhæðir fyrir rétt til vinna olíu í landinu.  

Bongo var að sögn Joly afar óánægður með að vera blandað í málið og reyndi að fá frönsk stjórnvöld til að stöðva hana.

Í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina Canal+ í gær, sem norska blaðið Aftenposten fjallar um, sagði Joly, að  Gabon væri gott dæmi um ríkt land, sem væri jafnframt óumræðilega fátækt. 

„Landsframleiðsla Gabon er álíka mikil og Portúgals. En þar eru bara lagðir 5 kílómetra langir vegarspottar á hverju ári og barnadauði er einna mestur í heimi. Olían hefur aldrei komið þjóðinni til góða," sagði Joly. „Það vorum við í Frakklandi sem nutum góðs af."

Bongo mun láta eftir sig mikil auðæfi, þar á meðal 39 fasteignir í Frakklandi. Hins vegar er ekki ljóst hver verður eftirmaður hans í Gabon en vangaveltur eru um að Pascaline, elsta dóttir hans, og Ali, sonur hans, muni berjast um völdin.

Skömmu eftir að fréttin um dauða Bongo barst var landamærum Gabon lokað og her landsins er í viðbragðsstöðu, væntanlega vegna þess að stjórnvöld óttast valdaránstilraun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert