Mikið um fagnaðarlæti

Tugþúsundir manna hafa safnast saman í miðborg Tehran til þess að fagna endurkosningu Íransforseta, Mahmoud Ahmadinejad. Andstæðingar forsetans halda þó mótmælum áfram.

Höfuðandstæðingur forsetans í kosningunum, Mir-Hossein Mousavi, hefur lagt fram áfrýjunarbeiðni vegna kosninganna. Forsetinn sjálfur hefur neitað öllum ásökunum um kosningasvindl og segir niðurstöðurnar vera mjög nákvæmar.

Ahmoudinejad sagði á fjöldafundinum að kosningar í íslömsku lýðveldi hefðu aldrei verið heilbrigðari og að fólki sjálft hefði ráðið úrslitum. „Sumir vilja lýðræði eingöngu sér til handa,“ sagði hann og vísaði þannig í gagnrýni á hann, bæði innanlands og utan.

„Sumir vilja kosningar, frelsi og trúverðugar kosningar. Þeir viðurkenna þær bara svo lengi sem úrslitin eru þeim í hag.“
Hann sagði Írani vera sameinaða í afstöðu sinni en þar sem fjörtíu milljónir kjósenda tóku þátt í kosningunum sé bara við því að búast að einhverjir séu vonsviknir með úrslitin.

Í dag voru áfram átök milli lögreglu og mótmælenda kosninganna og var hlutum borgarinnar lokað í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu mótmælanna.

Ekki hefur verið mikið um viðbrögð vegna kosninganna á heimsvísu en varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur látið í ljós efasemdir vegna úrslitanna.


Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert