Reynir að frelsa Aung San Suu Kyi

Ban Ki-moon mun ræða málefni Aung San Suu Kyi.
Ban Ki-moon mun ræða málefni Aung San Suu Kyi. Reuters

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, kom í dag til Myanmar, áður Búrma, þar sem hann tekst á við það verkefni að sannfæra stjórnvöld um að láta Aung San Suu Kyi og aðra fanga lausa. Sagðist Ban myndu beita herstjórnina þrýstingi í þessum tilgangi.

Ban Ki-moon sagðist ætla að biðja leiðtoga stjórnarinnar, Than Shwe hershöfðingja, leyfis til að hitta Aung San Suu Kyi. Herstjórnin hefur haldið henni í stofufangelsi í þrettán ár en hún er lýðræðissinni og réttmætur forsætisráðherra landsins samkvæmt kosningum árið 1990. Árið 1991 hlaut hún friðarverðlaun Nóbels.

„Þetta er mjög erfitt verkefni,“ sagði aðalritarinn skömmu eftir komuna til Yangon í Myanmar. „Eitt af markmiðum mínum er að fá alla pólítíska fanga leysta úr haldi, þar á meðal Aung San Suu Kyu.“ Einnig ætlar hann að gera yfirvöldum ljósar áhyggjur alþjóðasamfélagsins af stöðu mála í landinu og hvetja til breytinga í sátta- og lýðræðisátt.

Mannréttindahópar hafa varað við að ferðin verði algerlega misheppnuð fáist Aung San Suu Kyi ekki leyst úr haldi.

Ban hefur verið gagnrýndur fyrir að taka ekki á störfum sínum sem aðalritari af nægri hörku. Stuðningsmenn hans segja þó að hæglátur stíll hans muni bera árangur í Myanmar en síðast þegar Ban heimsótti landið sannfærði hann herstjórnina um að þiggja hjálpargögn vegna hvirfilbyls í maí liðins ár. Hamfarirnar urðu 138.000 að bana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert