Leiðtogi Tamíla handtekinn

BAZUKI MUHAMMAD

Leiðtogi Tamíl Tígra á Srí Lanka, Selvarasa Pathmanathan, var handtekinn á miðvikudag í Suðaustur-Asíu. Talsmaður stjórnarhersins á Srí Lanka staðfestir það í samtali við BBC en Pathmanathan tók við leiðtogahlutverkinu í maí sl. þegar Tamílar játuðu sig sigraða í baráttunni fyrir sjálfstæði Tamíla á Srí Lanka.

Hreyfing Tamíl Tígra hefur einnig staðfest handtökuna en Pathmanathan hefur verið fluttur til Srí Lanka þar sem hann er yfirheyrður. Fyrr í morgun var greint frá því að hann hafi verið handtekinn í Taílandi en stjórnvöld í Bankok neita því. Vefur Tamíla segir að hann hafi verið handtekinn í Kuala Lumpur og að leyniþjónusta Malasíu hafi komið að handtökunni ásamt leyniþjónustu Sri Lanka.

Lengi hefur verið orðrómur uppi um að Pathmanathan hafi stýrt hernaðarhluta samtaka Tamíla og stýrt vopnasmygli til þeirra svo árum skipti. Hann tók hins vegar við forystuhlutverkinu í Frelsisher Tamíl Tígra eftir að fyrrum leiðtogi, Velupillai Prabhakaran, auk helstu yfirmanna hreyfingarinnar var myrtur í maí.

Tamíl-Tígrarnir, LTTE, hafa lengi verið taldir einhver harðvítugustu skæruliðasamtök sögunnar og réðu um hríð yfir þriðjungi Srí Lanka. Fullyrt var að þeir bæru á sér blásýrutöflu til að geta fyrirfarið sér ef þeir næðust lifandi. Þeir voru alræmdir fyrir hryðjuverk jafnt á Srí Lanka sem utanlands. Yfir 30 ríki hafa sett Tígrana á lista yfir hryðjuverkasamtök.

Leiðtoginn fyrrverandi, Velupillai Prabhakaran, skipulagði að sögn sjálfsmorðstilræðið sem varð forsætisráðherra Indlands, Rajiv Gandhi, að bana en hann sendi indverskt herlið gegn Tígrunum 1987. Tígrarnir, sem eru hindúar, voru ein fyrsta hreyfing heims til að beita skipulega sjálfsmorðsárásum en fleiri samtök sigldu í kjölfarið, ekki síst í ríkjum múslíma.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert