Óvíst með atkvæði afganskra kvenna

Þessi búrkaklædda kona heldur á lofti auglýsingu um Hamid Karzai …
Þessi búrkaklædda kona heldur á lofti auglýsingu um Hamid Karzai forseta, sem gefur kost á sér í forsetakosningunum nk. fimmtudag. RAHEB HOMAVANDI

Svo gæti farið að afganskar konur gætu alls ekki kosið í kosningunum í landinu nk. fimmtudag. Ástæðuna má rekja til þess að enn vantar 13.000 konur í kosningaeftirlitið þar í landi. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken.

Í Afganistan er það afar illa séð að konur séu í sama rými og ókunnugir  karlmenn. Þess vegna hefur kjörstöðum verið skipt upp eftir kynjum, en ennþá vantar að manna kjörstaði kvenna. Meðal þess sem starfsmenn kosningaeftirlitsins þurfa að sinna er líkamsleit á þeim konum sem vilja kjósa. Meðan enn hefur ekki tekist að ráða nægilegan fjölda kvenna í kosningaeftirlitið eru taldar miklar líkur til þess að íhaldssamir karlmenn meini konum í fjölskyldu sinni að kjósa. 

Talskonur kvenréttindasamtaka í Afganistan setja stórt spurningamerki við lýðræðisgrundvöll kosninganna verði konum í reynd gert það ókleift að kjósa vegna skorts á kvenkyns kosningaeftirlitsfólki. 

„Ef helmingi landsmanna er meinað að taka þátt í kosningunum þá getur kosningin ekki talist gild,“ segir Orzala AShref, yfirmaður Tengslanets afganskra kvenna.

Meðan talíbanar réðu lofum og lögum í Afganistan var konum bannað að vinna, yfirgefa heimili sín án fylgdar karlmanns í sömu fjölskyldu og algengt var að konur sem sáust brosa eða hlægja opinberlega væru barðar. Ekki síst sökum þessa hefur það verið Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra mikið kappsmál að réttindi kvenna í landinu væru bætt.

Á mörgum stöðum í landinu hefur það hins vegar ekki tekist. Það á t.d. við um suðvesturhluta Afganistans þar sem aðeins ríflega 2.500 konur skráðu þátttöku sína í kosningaeftirlitið sem er langt undir þeim fjölda sem þörf er á. 

Í Nad-e-Ali, sem var undir stjórn talibana þar til nýverið, er mikill skortur á kvenkyns lögregluþjónum og opinberum kvenkyns starfsmönnum. Vegna þessa ákvað yfirkjörstjórn að leita til breska kvenna sem unnu á svæðinu um að taka að sér kosningaeftirlitið, en ættbálkahöfðingjar lögðust alfarið gegn þessu.

Þar sem afar stuttur tími er til stefnu hafa stjórnvöld lagt til að leitað verði til eldri karla og ungra drengja um að sinna kosningaeftirlitinu. Það telst þó alls ekki ákjósanleg lausn að mati Niamtullah Khan, 57 ára gamals bóndi á svæðinu.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu. Flestir nágranna minna leggjast alfarið gegn því að leyfa konum að fara á staði þar sem allt getur gerst. Að mínu mati á vissulega að horfa fram á veginn og ljóst að ákveðnir hlutir þurfa að breytast, en mun hvorki leyfa eiginkonu minni, systur né dóttur að fara inn í byggingu sem stútfull er af ókunnugum karlmönnum.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert