Obama gagnrýnir Skota

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, gagnrýndi í dag að Líbýumaðurinn  Abdelbaset Ali Mohmed Al Megrahi skyldi hafa verið látinn laus í Skotlandi af mannúðarástæðum. Sagði Obama, að það hefðu verið mistök að sleppa al Megrahi og hann ætti að vera í stofufangelsi en ekki ganga laus.

Al Megrahi er nú á leið frá Glasgow til Tripoli í Líbýu með flugvél en honum var sleppt lausum í dag þar sem hann er dauðvona af völdum krabbameins.

Al Megrahi var dæmdur í ævilangt fangelsi árið 2001 fyrir að skipuleggja sprengjuárás á farþegaflugvél bandaríska flugfélagsins Pan Am. Flugvélin sprakk yfir Lockerbie í Skotlandi og með henni fórust 270 manns.

Í yfirlýsingu, sem al Megrahi sendi frá sér í dag gegnum lögmann sinn, sagðist hann hafa þurft að þola miklar þjáningar vegna glæps sem hann framdi ekki. 

„Ég mun lifa það sem eftir er ævinnar undir skugga ranglætisins. Ég þurfti að velja um að eiga á hætti að deyja í fangelsi í þeirri von að nafn mitt yrði hreinsað eftir dauða minn, eða að snúa heim með þunga byrði sakfellingar, sem nú verður aldrei aflétt."

Al Megrahi féll frá áfrýjun, sem var í undirbúningi í skoska dómskerfinu svo hægt væri að láta hann lausan af mannúðarástæðum. Hann er aðeins talinn eiga nokkrar vikur eftir ólifaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert