Bill Clinton þurfti að flýja nafna sinn

Fellibylurinn Bill er nú yfir Atlantshafi og stefnir á austurströnd …
Fellibylurinn Bill er nú yfir Atlantshafi og stefnir á austurströnd Bandaríkjanna. Reuters

Fellibylurinn Bill hélt í dag áfram ferð sinni yfir Atlantshafið til vesturs með tilheyrandi úrkomu, flóðum og öflugum straumum. Bill og Hillary Clinton, sem voru í leyfi á Bermúdaeyjum, þurftu að stytta dvöl sína þar vegna þess að óveðrið stefnir þangað.

Það gæti hugsast að Bill muni einnig hafa áhrif á sumarleyfi Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, sem ætlar að dvelja á eyjunni Martha's Vineyard í Massachusetts, en reiknað er með að fellibylurinn fari yfir austurhluta Bandaríkjanna og Kanada á morgun og sunnudag.

Vindhraðinn í fellibylnum er nú um 49 metrar á sekúndu að jafnaði og Bill er nú skilgreindur sem 2. stigs fellibylur. Bátaeigendur á Martha's Vineyard hafa í dag bundið báta sína tryggilega en búast má við mikilli úrkomu og miklum öldugangi. 

Bandaríska utanríkisráðuneytið upplýsti í dag, að Hillary Clinton, utanríkisráðherra, og Bill, eiginmaður hennar og hefðu farið frá Bermúda í gær vegna óveðursins. Ekki var upplýst hvert þau fóru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert