Picasso-safninu í París lokað vegna endurbóta

Picasso-safnið í París.
Picasso-safnið í París.

Picasso-safninu í París var lokað í dag vegna endurbóta. Safnið verður opnað á ný í febrúar árið 2012 eftir 30 milljóna evra endurbætur eða sem nemur fimm milljörðum króna.

Picasso-safnið í París er eitt hið stærsta í heiminum sem helgað er spænska listmálaranum Pablo Picasso. Safnið var opnað árið 1985. Það er í 17. aldar setri og eru um 5.000 verk geymd á safninu. Þar á meðal eru málverk, teikningar og skúlptúrar eftir meistarann, ásamt ljósmyndum og skjölum sem tengjast Picasso. Aðeins hefur verið hægt hafa brot af mununum til sýnis vegna plássleysis.

Úr því verður bætt en ætlunin er að stækka sýningarrými úr eitt þúsund fermetrum í tvö þúsund fermetra. Um leið er ætlunin að gera safnið aðgengilegra fyrir hreyfihamlað fólk.

Á næstu vikum verður öllum gripum safnsins pakkað og þeir fluttir í vöruhús. Meðan á lokun safnsins stendur verður ekki hægt að fá lánuð verk frá því. Þá falla farandsýningar safnsins niður næstu tvö árin en Picasso-safnið í París hefur haft gríðarmiklar tekjur af farandsýningum síðustu árin.

Metaðsókn var að safninu í gær en enginn aðgangseyrir var innheimtur og komu rúmlega 5.800 manns á safnið.

Um hálf milljón gesta sækir safnið á hverju ári og er m 65% gestanna erlendir ferðamenn. Stjórnendur Picasso-safnsins í París vonast til að aðsókn að safninu muni tvöfaldast að loknum endurbótum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert