Blóðugur morgun í Írak

Að minnsta kosti 12 létust og yfir 40 slösuðust í tveimur sprengjuárásum í Norðurhluta Íraks í morgun. Konur og börn eru fjölmenn í hópi látinna.

Morgunninn var blóði drifinn í Norðurhluta Íraks. Fimm lögreglumenn og tvö börn létust þegar bílsprengja sprakk við lögreglustöð í Al-Sharqat, um 100 kílómetra Norðan við Tíkrít. Að minnsta kosti 20 slösuðust í sprengingunni, þar af eru 13 lögreglumenn.

Þá létust fjórir og 23 slösuðust þegar sprengja sprakk á markaði í bænum Sinjar, skammt frá landamærum Sýrlands í morgun.

Staða öryggismála í Írak hefur stórversnað að undanförnu og mannskæðar árásir verið tíðar, m.a. vegna þess að félagar í öryggissveitum landsins hafa aðstoðað uppreisnarmenn.

Tvær öflugar sprengingar urðu í Bagdad í liðinni viku en tveir vörubílar, fullir af sprengiefni, sprungu, annar utan við utanríkisráðuneytið og hinn utan við fjármálaráðuneytið. Alls létu 95 lífið og 600 særðust í sprengjuárásunum.

Þá lést 21 og 32 slösuðust þegar tveir menn sprengdu sig í loft upp á sneisafullu kaffihúsi í Sinjar 13. ágúst síðastliðinn.

Stjórnvöld í Írak saka nágranna sína í Sýrlandi um að hafa skipulagt árásirnar að undanförnu og hafa kallað sendiherra sinn heim frá Damaskus. Sýrlendingar svöruðu í sömum mynt og kölluð sendifulltrúa sína í Bagdad umsvifalaust heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert