„Palin á fátt sameiginlegt með ímyndinni"

Levi Johnston og Bristol Palin
Levi Johnston og Bristol Palin AP

Levi Johnston, barnsfaðir Bristol Palin dóttur Sörah Palin fyrrum ríkisstjóra í Alaska og varaforsetaefnis bandarískra repúblíkanaflokksins, staðhæfir í viðtali við tímaritið Vanity Fair að Palin hafi viljað að Bristol leyndi þungun sinni og að hún fengi síðan sjálf að ættleiða barnið. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.

Í viðtalinu segir hann einnig að Sarah eigi í raun fátt sameiginlegt með þeirri ímynd sem dregin hafi verið upp af henni í fjölmiðlum. Þannig sé ekki rétt að hún fari á veiðar, eldi góðan mat og sé skipulögð húsmóðir og móðir.

„Heimili Palin-fjölskyldunnar er allt öðruvísi en marir ímynda sér og það var það líka áður en hún var tilnefnd sem varaforsetaefni. Þar fer ekki mikið fyrir uppeldi eða foreldraumsjá. Sarah eldar ekki mat. Todd eldar ekki mat. Börnin gera allt sjálf. Þau elda, þrífa, þvo þvott og sjá um heimanámið sjálf,” segir hann.

„Það var venjan að Bristol hjálpaði yngri systrum sínum  við heimanámið á meðan ég skellti kjúklingi eða nautakjöti á grillið,” segir hann.

Johnston bjó með Palin fjölskyldunni á þeim tíma sem kosningabarátta Palin og John McCain, forsetaefnis repbúlíkana stóð sem hæst á síðasta ári. Tripp, sonur  hans og Bristol fæddist í desember á síðasta ári  og þremur mánuðum síðar sleit hann trúlofun þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert