Brown kúventi

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, neyddist í dag til að verða við beiðni um að breska stjórnin beitti sér fyrir því að Líbíumenn greiddu fjölskyldum fórnarlamba sprengjutilræða Írska lýðveldishersins (IRA) í Bretlandi skaðabætur.

Brown neitaði að verða við beiðninni í bréfi sem hann skrifaði lögfræðingi fjölskyldnanna fyrir tæpu ári. Í bréfinu neitaði hann því að viðskiptahagsmunir væru „meginástæða“ þess að hann vildi ekki beita sér fyrir skaðabótunum. Hann tók þó fram að það þjónaði hagsmunum Breta að halda áfram samstarfi við Líbíumenn, meðal annars á sviði viðskipta og í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.

Brown kúventi hins vegar eftir að bréfinu var lekið í fjölmiðla um helgina og varð loks við beiðninni um að stjórnin beitti sér fyrir því að fjölskyldurnar fengju skaðabætur frá Líbíumönnum.

Líbíumenn eru sakaðir um að hafa séð IRA fyrir sprengiefnum sem notuð voru í mannskæðum árásum í Bretlandi.

Stjórn Browns sætir nú vaxandi gagnrýni fyrir að hafa beitt sér fyrir því að Líbíumaður, sem var dæmdur fyrir Lockerbie-tilræðið, yrði leystur úr haldi í Skotlandi og framseldur til heimalandsins. Stjórnin er sökuð um að hafa gert það til að tryggja Bretum mikilvæga viðskiptasamninga við Líbíumenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert