Gat fjögur börn með dóttur sinni

Ástralskur karl, sem nú er á sjötugsaldri, nauðgaði dóttur sinni nær daglega um 30 ára skeið og gat með henni fjögur börn. Málið þykir minna mjög á sifjaspell Josefs Fritzl í Austurríki sem upplýstist nýlega.

Dagblaðið Herald Sun í Melbourne greinir frá því í ítarlegri umfjöllun í dag að maðurinn hafi byrjað að misnota dóttur sína 1970 þegar hún var aðeins 11 ára gömul. Misnotkunin hélt áfram allt til ársins 2007.

Lögreglan í Victoriaríki neitaði að staðfesta frásögnina. Hún kvaðst bundin af dómsúrskurði sem bannaði að segja frá rannsókn málsins eða að gefa upp nafn hins ákærða.

Herald Sun segir að dóttirin hafi raunverulega verið fangi í húsi fjölskyldunnar um 100 km austur af Melbourne.  Eiginkona hins ákærða og móðir stúlkunnar neitar því að hafa vitað um misnotkunina. „Við bjuggum í stóru húsi, svo ég hefði ekkert vitað,“ sagði eiginkonan. „Hann var orðljótur. Hann var drykkjumaður.“

Herald Sun segir einnig að nágrannar og barnaverndaryfirvöld hafi ekki brugðist við grunsemdum um athæfi mannsins.

John Brumby, forsætisráðherra Victoriaríkis, sagði að löggæslan myndi beita sér af fullum þunga í málinu. Hann viðurkenndi að leitað yrði svara við því hvers vegna ekki var fyrr brugðist við.

Sagt er að lögreglan muni beita DNA rannsókn til að sanna að hann sé faðir barna dóttur sinnar þegar málið verður dómtekið í nóvember.

Herald Sun segir að börnin hafi fæðst með fæðingargalla á stóru sjúkrahúsi í Melbourne. Eitt þeirra, sem var stúlka, dó vegna heilsubrests.

Móðir fórnarlambsins sagði Herald Sun að dóttir hennar lokaðist alveg þegar hún væri spurð um hver væri pabbi barnanna, hún hafi gefið óljós svör um að hafa hitt menn á næturklúbbum. Hún lýsti manni sínum sem skapmiklum og ofbeldishneigðum en kvaðst aldrei hafa grunað hann um kynferðisglæpi.

Í fréttinni segir að fórnarlambið hafi leitað til lögreglu árið 2005 eftir að nágranni hvatti hana til að grípa til aðgerða. Hún neitaði síðan frekari samvinnu við lögregluna vegna óttta um öryggi sitt.  Húm kom síðan aftur til lögreglunnar í júní síðastliðnum og gaf skýrslu.

Lögreglan tók DNA sýni af föðurnum og kærði hann fyrir kynferðislega misnotkun í febrúar. Nágranni sagði dagblaðinu að hann hafi grunað manninn í að minnsta kosti fjögur ár, en ekki gert neitt því hann vildi ekki vera með afskiptasemi.

Frá Melbourne.
Frá Melbourne.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert