Serbar létu sænska lögreglu vita fyrir mánuði

Lögreglumenn ráðast til inngöngu í peningageymsluna. Þá voru ræningjarnir farnir.
Lögreglumenn ráðast til inngöngu í peningageymsluna. Þá voru ræningjarnir farnir. Reuters

Lögregla í Serbíu segist nú hafa veitt sænsku lögreglunni upplýsingar fyrir um mánuði um hóp manna, sem ætluðu að fremja rán í Stokkhólmi. Hafi Svíar fengið nöfn ræningjanna og upplýsingar um hvar þeir ætluðu að láta til skarar skríða.

„Við létum þá fá upplýsingar um allt sem þurfti til að koma í veg fyrir ránið," hefur sænska Aftonbladet eftir Milorad Veljovic, lögreglustjóra í Serbíu. 

„Eftir að við komumst á snoðir um að þeir væru að skipuleggja stórt rán unnum við baki brotnu við að afla upplýsinga. Þær afhentum við lögreglu í Svíþjóð," segir Veljovic síðan. „Ég veit ekki hvað gerðist svo."

Hann segist vera vonsvikinn yfir því, að upplýsingarnar skyldu ekki vera teknar alvarlega. „Við gerðum nánast allt sem í okkar valdi stóð annað en að fara til Svíþjóðar og stöðva ræningjana," segir hann. 

Hópur ræningja notaði þyrlu til að brjótast inn í peningageymslu í suðurhlut Stokkhólms í síðustu viku og stela miklu af peningum. Lögregla í Svíþjóð hefur handtekið sex manns vegna ránsins, þar á meðal þyrluflugmann.

Varg Gyllander, talsmaður sænska ríkislögreglustjórans, segir að þar á bæ tjái menn sig ekkert um þetta má.

Sænska fréttastofan TT hefur hins vegar eftir ónafngreindum heimildarmanni innan lögreglunnar, að sænska lögreglan hafi fengið upplýsingar frá Serbum um rán en ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir ránið í Stokkhólmi í síðustu viku út frá þeim upplýsingum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert