Rangur Rasmussen

Obama ræðir við Rasmussen í Kristjánsborg í dag.
Obama ræðir við Rasmussen í Kristjánsborg í dag. Reuters

Komið hefur í ljós að Hvíta húsið fylgist ekki alveg nógu vel með breytingum í dönskum stjórnmálum. Það má að minnsta kosti lesa út úr dagskrá, sem send var út í gær um dagskrá skyndiheimsóknar Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, til Kaupmannahafnar í morgun.

Blaðið Chicago Sun Times birti á vefsíðu sinni í gær dagskrá heimsóknarinnar í heild enda var Obama að ganga erinda Chicagoborgar á fundi Alþjóðaólympíunefndarinnar, sem nú stendur yfir í kaupmannahöfn. Þar segir m.a. að Obama muni ferðast til Kristjánsborgarhallar þar sem Maragrét Danadrottning og Hinrik prins taki á móti honum. „Forsetinn mun síðan eiga fund með Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana," segir þá í dagskránni. 

Það gekk eftir að Obama ræddi við forsætisráðherra Dana í Kristjánsborgarhöll. Sá heitir hins vegar Lars Løkke Rasmussen og tók við völdum í sumar eftir að nafni hans, Anders Fogh, var valinn í embætti framkvæmdastjóra NATO.

Lars Løkke sagði við danska fjölmiðla eftir fundinn með Obama í dag, að bandaríski forsetinn hefði sannfært sig um, að hann væri staðráðinn í að leggja sitt að mörkum í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsráðstefna á vefum Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Kaupmannahöfn í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert