Skólar opna á ný á Súmötru

Skólastarf hófst á ný í borginni Padang á Súmötru í dag og er lífið smátt og smátt að færast í eins eðlilegt horf og mögulegt er á ný í borginni. Fimm dagar eru liðnir frá því að harður jarðskjálfti reið yfir eyjuna. Að minnsta kosti 1.100 létust í skjálftanum og er óttast um þrjú þúsund til viðbótar.Formlegri leit í rústum bygginga var hætt í gærkvöldi en enginn hefur fundist á lífi í húsarústunum frá því á föstudag.

Beinist hjálparstarfið nú að því að koma aðstoð, bæði matvælum og lyfjum, til nauðstaddra í nágrenni borgarinnar. Skiptir miklu máli að koma í veg fyrir að fólk neyti mengaðs vatns svo hægt verði að koma í veg fyrir alvarlegar farsóttir í kjölfar náttúruhamfaranna. 

Fjölmargir þeirra sem misstu heimili sín í skjálftanum kvarta undan því að hafa fengið lítinn stuðning undanfarna daga. Á vef BBC er haft eftir íbúum þorpa í nágrenni Padang að þeir þjáist af hungri. Þau heyri í fréttum útvarps að verið sé að veita aðstoð en þeir verði lítið varir við þessa aðstoð sem hljómi svo fallega í útvarpinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert