Obama fær friðarverðlaunin

Barack Obama forseti Bandaríkjanna fær friðarverðlaun Nóbels í ár. Thorbjørn Jagland, formaður norsku Nóbelnefndarinnar, tilkynnti um handhafa friðarverðlaunanna í Ósló í morgun. Obama fær verðlaunin fyrir að stuðla að samvinnu milli manna, samkvæmt tilkynningunni.

Nóbelnefndin nefnir einkum starf Obama á sviði mannréttinda og takmörkun á kjarnorkuvopnum sem ástæðu útnefningarinnar. Þá nefndi Jagland einnig starf Obama að umhverfismálum.

Það er afar sjaldan, sem einn maður hefur í sama mæli og Obama náð að fanga athygli heimsins og veita fólki von um betri framtíð," segir m.a. í rökstuðningi verðlaunanefndarinnar.  „Stefna hans byggist á þeirri hugmynd, að þeir sem axla leiðtogahlutverk í heiminum verði að gera það á grundvelli gilda og viðhorfa, sem meirihluti mannkyns deilir." 

Nýi friðarverðlaunahafinn var valinn fyrir tveimur dögum. Hann var valinn úr hópi 205 kandidata og er það met í tilnefningum til verðlaunanna.

Ritari Nóbelnefndarinnar, Geir Lundestad, hafði samband við öryggisþjónustu lögreglunnar áður en ákvörðunin var tekin af ótta við leka. Samkvæmt ráðleggingum öryggisþjónustunnar tók nefndin lokaákvörðunina bak við niðurdregin gluggatjöld og farsímarnir voru geymdir frammi á gangi og slökkt á þeim.

Barack Obama
Barack Obama Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert