Milljarður býr við hungursneyð

Fjöldi vannærðra hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarinn áratug.
Fjöldi vannærðra hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarinn áratug. Reuters

Sameinuðu þjóðirnar segja að um milljarður jarðarbúa þurfi að þola hungursneyð á þessu ári vegna matvælaskorts og alþjóðlegrar efnahagskreppu. Þetta staðfestir dökka spá stofnana á vegum SÞ fyrr á þessu ári.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) og Matvælaáætlun SÞ segja að rúmlega 100 milljón fleiri séu vannærðir í ár miðað við síðasta ár. Talan hafi ekki verið hærri í fjóra áratugi.

Framkvæmdastjóri FAO segir fjölgunina vera ólíðandi. Hann bendir á að nú á dögum búi menn yfir þeirri þekkingu og aðferðum, bæði tæknilegum og efnahagslegum, til að sigrast á hungursneyð. Hann segir að það skorti pólitískan vilja til að ganga skrefið til fulls.

Hungursneyðin skýrist aðallega af hærra matvælaverði, sér í lagi í þróunarríkjunum, og vegna minnkandi tekna og atvinnuleysis.

Talan yfir fjölda vannærðra hefur verið að hækka undanfarinn áratug, og er það viðsnúningur frá þeim árangri sem náðist á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert