Leyniþjónusta safnaði bröndurum

Trabantinn var táknmynd Austur-Þýskalands í hugum margra og lék því …
Trabantinn var táknmynd Austur-Þýskalands í hugum margra og lék því hlutverk í mörgum brandaranna. Reuters

Leyniþjónusta Vestur-Þýskalands safnaði skrítlum frá Austur-Þýskalandi á þeim árum þegar járntjaldið aðskildi löndin. Skrítlurnar þóttu vera góð vísbending um óánægju Austur-Þjóðverja, en þar gat verið saknæmt að segja brandara.

Í þessari viku var flett hulu af skjölum sem sýndu að skrítlunum var safnað af útsendurum vestur-þýsku leyniþjónustunnar, úr bréfum sem útsendarar opnuðu og með því að hlera símtöl, að því er fram kemur í Daily Telegraph.

Brandararnir voru samviskusamlega skráðir og flokkaðir áður en þeir voru sendir til Bonn, embættismönnum þar til upplýsingar og ánægjuauka. 

„Þetta sló alveg í gegn hjá yfirmönnum okkar,“ sagði ónefndur njósnari BND-leyniþjónustu Vestur-Þýskalands. „Kanslaraembættið og ráðuneytin biðu í ofvæni eftir skýrslunum til að geta hlegið að nágrönnum okkar hinum megin.“

Yfirmenn BND sögðu að skrítlurnar hafi gefið mikilvægar upplýsingar um hvernig Austur-Þjóðverjar hugsuðu til stjórnvalda í landinu. Brandaraskýrslunum fylgdu enda lærðar útleggingar og greining á ástandinu austan járntjaldsins. Í einni skýrslunni sagði m.a.:

„Stjórnvöld í Austur-þýska alþýðulýðveldinu  telja að þjóðin sé sveigjanleg og viljug til að færa fórnir, en eru tilbúin að grípa til harðra aðgerða til að koma í veg fyrir „pólskt ástand“.“

Það gat verið hættulegt fyrir Austur-Þjóðverja að segja skrítlur. Leynilögreglan Stasi var með þriðjung þjóðarinnar á sínum snærum sem uppljóstrara. Þúsundir borgara misstu vinnuna, fjölskyldur sínar og jafnvel frelsi fyrir að gera grín að paradís verkalýðsins.

Meðal brandara sem lesa má í skýrslunum eru þessir:

„-Eru Austur-Þjóðverjar komnir af öpum?

-Nei, það er ómögulegt. Apar gætu ekki lifað á bara tveimur banönum á ári.“

„-Hvað myndi gerast ef eyðimörkin yrði kommúnísk?

-Fyrst gerðist ekki neitt - svo yrði sandskortur!“

„-Hvernig tvöfaldar þú verðgildi Trabants?

-Með því að fylla tankinn af bensíni.“

„Nýjasta gerðin af Trabant verður með tveimur púströrum. Þá verður hægt að nota hann sem hjólbörur!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert