Meira en eitt þúsund dánir úr svínaflensu

Bólusett við svínaflensu.
Bólusett við svínaflensu.

Andlát af völdum svínaflensu í Bandaríkjunum eru orðin eittþúsund, að sögn forstjóra sjúkdómsvarnastofnunarinnar CDC. Hann segir útbreiðslu flensunnar nú álíka og þegar flensa nær hámarki að vetri til í landinu.

Forstjórinn segir „margar milljónir“ manna hafa veikst af svínaflensu það sem af er. Nákvæmar tölur eru ekki fyrir hendi þar sem ekki er tekið til rannsóknar sýni úr öllum sjúklingum.

Meira en 20.000 manns hafa lagst inn á spítala vegna veikinnar og af hinum látnu eru um 100 börn.

Svínaflensa er nú útbreidd í 46 ríkjum Bandaríkjanna af 50. Hún telst ekki útbreidd í  Connecticut, Hawaii, New Jersey og Suður-Karólínu.

Fleiri hafa verið bólusettir til þessa í haust en fyrir nokkra aðra flensutíð, að sögn heilbrigðisfulltrúa. Alls hafa 60 milljónir manna verið bólusettar. Venjulega eru bólusetningar vegna flensu seinna á ferðinni í Bandaríkjunum en í ár. Breytingin er rakin til aukinnar meðvitundar um sjúkdómshættuna vegna umræðunnar um svínaflensuna.

Og að hluta til liggur skýringin í framboði af bóluefni, en þegar eru fyrir hendi 85 milljónir skammta, eða miklu fleiri en menn eiga að venjast við októberlok. Að jafnaði eiga sér stað um ein milljón bólusetninga við flensu í Bandaríkjunum ár hvert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert