Brown vill senda fleiri hermenn til Afganistans

Gordon Brown
Gordon Brown Pool

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segist nú reyna að sannfæra leiðtoga annarra NATO-ríkja í Evrópu um mikilvægi þess að senda a.m.k. 5.000 fleiri hermenn til Afganistan. 

Í viðtali við breska ríkisútvarpið segist Brown hafa sent sendifulltrúa til vinaþjóða í Evrópu í því skyni að biðja þær um að leggja sitt af mörkum í stríðinu í Afganistan.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, íhugar enn hverju hann skuli svara Stanley McChrystal, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Afganistan, sem beðið hefur um tugi þúsunda bandaríska hermenn til viðbótar við þá sem þegar eru í landinu. McChrystal hefur einnig sagt að nauðsynlegt væri að fá meiri stuðning frá öðrum NATO-ríkjum.

„Ég kalla eftir hjálp. Að mínu mati geta lönd NATO sent 5.000 fleiri hermenn til Afganistan. Ég tók að mér að spyrja NATO-þjóðirnar í Evrópu og raunar líka þjóðirnar utan Evrópu um aðstoð og kanna vilja þjóðarleiðtoga til þess að styrkja hernaðarlegt samstarf okkar í Afganistan.

Ég er sannfærður um mér takist að sannfæra þá þjóðarleiðtoga, sem fyrir aðeins nokkrum vikum sögðust ekki hafa tök á því að senda fleiri hermenn til Afganistans, um að við getum þjálfað heimamenn og verið stuðningsaðili heimahersins. Ef við getum fundið lausn sem gerir þjóðunum kleift að kalla hermenn sína heim með tíð og tíma í framtíðinni, þá er ekki nema rétt að þessar sömu þjóðir sendi fleiri hermenn núna þannig að hægt sé að dreifa byrðunum."

Alls eru um 9.000 breskir hermenn í Afganistan. Flestir þeirra eru á átakasvæðum í Helmand héraðinu þar sem þeir hafa þurft að takast á við uppreisnarsveitir Talíbana. Brown hefur heitið því að senda a.m.k. 500 breska hermenn til viðbótar til Afganistans.

„Við erum reiðubúin að senda fleiri hermenn til Afganistan, en það þarf að dreifa byrðinni meðal fleiri bandaþjóða okkar,“ segir Brown og tekur fram að Bretar séu enn sem komið er eina NATO-þjóðin sem heitið hafi fleiri hermönnum. „En ég er sannfærður um að aðrar þjóðir muni bregðast jákvætt við bón okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert