Banna dauðarefsingar í Rússlandi

Stjórnlagadómstóll Rússlands hefur ákveðið að banna dauðarefsignar í landinu.
Stjórnlagadómstóll Rússlands hefur ákveðið að banna dauðarefsignar í landinu. AP

Rússnesk yfirvöld mega ekki beita dauðarefsingu, þrátt fyrir að tímabundið bann við slíkum refsingum renni út á næsta ári. Þetta segir rússneskur dómstóll og hefur með þessu lagt blátt bann við dauðrefsingum í landinu.

Rússneskir stjórnmálamenn hafa hins vegar sagt að í hugum almennings sé of snemmt að afnema dauðarefsingu með formlegum hætti, því meirihluti Rússa sé fylgjandi slíkri refsingu.

Bannið rennur út 1. janúar nk. Valerí Zorkin, forseti stjórnlagadómstóls Rússlands, segir að þrátt fyrir það megi yfirvöld ekki lífláta fanga.

„Þetta er endanlegur úrskurður og það er ekki hægt að áfrýja honum,“ segir Zorkin. Hann bætir við að nú sé útilokað að beita slíkri refsingu í landinu, því rússnesk stjórnvöld hafi undirritað alþjóðlegan samning sem kveða á um bann við dauðarefsingum.

Bannið hefur verið við gildi frá árinu 1999. Þá fyrirskipaði stjórnlagadómstóll landsins að ekki mætti beita slíkri refsingu fyrr en allir Rússar hefðu aðgang að kviðdómi, sem myndi fjalla um mál viðkomandi fyrir dómstólum.

Frá og með 1. janúar nk. verður Tsjetsnía síðasta rússneska héraðið sem tekur upp slíkt kerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert