Segja lík Hitlers að engu gert

Adolf Hitler
Adolf Hitler

Jarðneskar leifar Adolfs Hitlers, Evu Braun og fjölskyldu Goebbels voru í leynilegri aðgerð árið 1970 grafnar upp, þær brenndar og öskunni síðan dreift í austurþýska fljótinu Biederitz.

Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende, en rússneska fréttaveitan Interfax greindi fyrst frá málinu og hafði heimildir sínar úr gagnasafni leyniþjónustu landsins.

Í gögnunum kemur fram að það hafi verið Júríj Andropov, þáverandi yfirmaður sovésku leyniþjónustunnar KGB og síðar aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, sem í mars árið 1970 gaf fyrirskipun um aðgerðirnar. Hann fól útvöldum hópi KGB-njósnara í Þýskalandi að  grafa upp brunnin lík Hitlers og Braun, en þeim hafði leynilega verið komið fyrir við herstöð í Magdeburg. Einnig voru grafnar upp jarðneskar leifar Joseph Goebbels, eiginkonu hans og sex barna þeirra.

Eftir því sem fram kemur í gögnum skjalasafnsins er helsta ástæða þess að Júríj Andropov vildi láta eyða öllum jarðneskum leifum Hitlers fyrst og fremst ótti hans við það að einhver kæmist á snoðir um hverjir hvíldu í þessum ómerktu gröfum þegar rússneskra hersveitir yfirgæfu herstöðina. Hann hafði áhyggjur af því að grafirnar yrði samkomustaður nasista og fylgismanna þeirra.

Áður en Hitler, Braun og Goebbelsfjölskyldan var loks grafin í Magdeburg höfðu líkin verið grafin niður nokkrum sinnum áður. Ástæðan var sú að Rússar óttuðust stöðugt að einhver fengi veður af því hvar líkin væru niður komin. Fyrst eftir fall Sovétríkjanna var því ljóstrað upp að hauskúpa Hitlers  væri vel geymd í Moskvu, en sagan segir að hún hafi verið flutt úr neðanjarðarbyrgi hans í Berlín til Moskvu árið 1945.

Nýverið komust bandarískir vísindamenn að þeirri niðurstöðu að hauskúpubrotið gæti ekki verið úr Hitler. Prófanir á erfðaefni hauskúpubrotsins hafi leitt í ljós að það hefði tilheyrt konu á aldrinum 20-40 ára. Rússneska leyniþjónustan staðhæfir engu að síður að hauskúpan sé ekta og hafi í reynd tilheyrt Hitler.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert