Mótmælendur á mengandi rútu

Þúsundir mótmælenda hafa safnast saman í Kaupmannahöfn.
Þúsundir mótmælenda hafa safnast saman í Kaupmannahöfn. Reuters

Danska lögreglan stöðvaði í morgun hóp mótmælenda, sem var á leið til Kaupmannahafnar til að taka þátt í mótmælum í tengslum við umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í borginni. Í ljós kom nefnilega, að rútan, sem mótmælendurnir voru í, uppfyllti engar kröfur um mengun frá bílum.

Að sögn Jótlandspóstins var fólkið á ferð í hvítri Scania Vabis rútu, árgerð 1967. Hefur blaðið eftir  Johnny Jacobsen, talsmanni lögreglu, að rútan hafi verið svo gömul, að hún uppfyllti því ekki þær kröfur um losun koltvísýrings, sem gerðar eru til bíla í miðborg Kaupmannahafnar. „Þetta er nokkuð mótsagnakennt því fólkið sagðist vera að berjast fyrir umhverfinu," sagði lögreglumaðurinn.  

Hópurinn varð að snúa við og finna aðrar leiðir inn í borgina. Jacobsen segir, að fólkið hafi lagt bílnum skammt frá og tekið síðan neðanjarðarlestina.  

Hann segir, að Svíarnir hafi þó alls ekki verið þeir einu, sem virðast ekki hugsa sérstaklega mikið um umhverfið á leiðinni til Kaupmannahafnar. Ekki sé óalgengt, að mótmælendurnir komi  á öllu sem hreyfist.  

Ef ekið er á mengandi bílum inn í miðborg Kaupmannahafnar þurfa bílstjórarnir að greiða 5000 danskra króna sekt, jafnvirði 125 þúsund króna, en eigandinn 125 þúsund króna sekt, jafnvirði 350 þúsunda króna. Sænsku aðgerðasinnarnir sluppu þó með aðvörun.  

Búist er við að 60-80 þúsund manns taki þátt í mótmælaaðgerðum í Kaupmannahöfn í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert