Ekkert samkomulag í ár?

Danskir embættismenn á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn hafa reynt að draga úr væntingum manna um að skuldbindandi samkomulag náist á ráðstefnunni. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að þeir segi að árangur geti náðst, en það verði kannski ekki fyrr en á næsta ári, á fundi í Mexíkó, sem alþjóðlegt samkomulag náist.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur ávarpað ráðstefnuna og hún segir að Bandaríkin séu reiðubúin að vinna að því að styrkja þróunarlönd um 100 milljarða dala á ári.

Nú eru aðeins tveir dagar eftir af ráðstefnunni og pattstaða komin upp.

Auðug og fátæk ríki deila nú um það hverjir eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hversu mikill samdrátturinn eigi að vera og hversu mikið eigi að aðstoða fátækari ríki heims í þessari baráttu.

Danska dagblaðið Politiken hefur eftir heimildarmanni sínum að unnið sé dag og nótt að því að ná samkomulagi. „Við höfum ekki gefist upp, en við þurfum á aðstoð þjóðarleiðtoganna að halda. Þeir verða að láta verkin tala. Annars verður þetta mjög erfitt.“

BBC bendir hins vegar á að árangur hafi nú þegar náðst á ráðstefnunni, því auðugar þjóðir hafi heitið að leggja til meira fé í baráttunni við hlýnun jarðar.

Skilaboð mótmælenda eru skýr.
Skilaboð mótmælenda eru skýr. Reuters
Vegfarendur hreinsa snjó af hnetti sem er fyrir utan ráðstefnuhöllina …
Vegfarendur hreinsa snjó af hnetti sem er fyrir utan ráðstefnuhöllina í Kaupmannahöfn. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert