Talað í alla nótt

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur enn í Kaupmannahöfn en ráðstefnugestir hafa í alla nótt rætt samkomulag, sem náðist í gærkvöldi milli Bandaríkjanna, Kínverja og ýmissa lykilríkja um losun gróðurhúsalofttegunda og fjárframlög til fátækari ríkja sem hafa gagnrýnt samkomulagið harðlega.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagðist í gærkvöldi hafa náð merkilegu samkomulagi á fundum með um tveimur tugum forseta og forsætisráðherra. En Obama viðurkenndi, að samkomulagið næði ekki nægilega langt til að stemma stigu við hlýnun jarðar. 

Fulltrúar á ráðstefnunni hafa síðan rætt um samkomulagið í alla nótt og margir fulltrúar fátækari ríkja hafa lýst því yfir að þeim finnist lítið til þess koma. Claudia Salerno Caldera, fulltrúi Venesúela, lyfti að því er virtist blóðugri hendi, þegar hún kom í ræðustól, og sagðist hafa skorið sig til að vekja athygli á því að land hennar hafi ekki verið haft með í ráðum.

„Þið ætlið að samþykkja valdarán gegn Sameinuðu þjóðunum," sagði hún.

Ian Fry, fulltrúi eyríkisins Tuvalu í Kyrrahafi, sagði að samkomulagið væri svik. „Það virðist sem svo, að ykkur hafi verið boðnir 30 silfurpeningar til að svíkja þjóð okkar og framtíð," sagði hann en hætta er talin á að Tuvalu sökkvi í sæ vegna þess að yfirborð sjávar fer hækkandi.  

Lumumba Stanislas Dia-ping, fulltrúi Súdans og forseti svonefnds G77 ríkjabandalags þróunarríkja, sem hefur verið mjög yfirlýsingaglaður á ráðstefnunni, sagði að samkomulagið jafngilti því að Afríkubúar væru brenndir líkt og gyðingar í helförinni. Samkomulagið byggði  á sömu gildum og leiddu til þess, að 6 milljónir Evrópubúa voru leiddir inn í brennsluofna.

Mörgum ráðstefnugestum ofbauð þessi málflutningur og sum þróunarríki gáfu til kynna að þau myndu styðja samkomulagið. Mohamed Nasheed, forseti Maldiveyja í Indlandshafi, sagðist ekki vera ánægður með samkomulagið en það myndi á endanum skila árangri.

Samkomulagið felur í sér skuldbindingu um að andrúmsloft jarðar hlýni ekki meira en um 2 gráður. Hins vegar eru ekki settar fram leiðir til að ná því markmiði, svo sem markmið um losun gróðurhúsalofttegunda til 2020 eða 2050.  

Þá kemur ekki fram hvenær losunin á að ná hámarki. Slík krafa var sett fram af hálfu þróuðu ríkjanna en Kínverjar voru henni andvígir.   

Hins vegar náðist fram árangur  varðandi fjárframlög til fátækari þjóða svo þær geti mætt afleiðingum loftmengunar, svo sem náttúruhamförum,  og gripið til ráðstafana til að draga úr henni.  Ríku ríkin heita því að leggja fram 30 milljarða dala á tímabilinu 2010 til 2012. Þá eru sett fram markmið um að leggja fram 100 milljónir dala til ársins 2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert