Eins og eftir heimsendi

Fregnir herma að eyðileggingin við upptök jarðskjálftans, sem varð á Haítí síðasta þriðjudag, sé gríðarleg, jafnvel enn meiri en í höfuðborginni. Fréttaritarar BBC staðhæfa að í bænum Leogane, vestur af Port au Prince, sé um að litast eins og eftir heimsendi. Næstum hver einasta bygging sé ónýt. Óttast er að allt að 200 þúsund manns hafi farist.

Þetta er á svipuðum slóðum og íslenska rústabjörgunarsveitin verður að störfum í dag. Þar lýsir Mark Doyle, fréttamaður BBC, ástandinu svona:

„Næstum því hver einasta bygging við veginn sem ég keyri á núna hefur jafnast við jörðu. Eyðileggingin hér er jafnvel enn dramatískari en hinar hræðilegu aðstæður í höfuðborginni. Fólk hefur flúið út á nærliggjandi akra og mýrar, allt til þess að forðast martröðina inni í hinum hrundu húsum.

Ég sá langa röð af fólki við einn vatnskrana sem enn virkaði. Tugir þúsunda búa nú undir beru lofti, á kirkjulóðum, leikvöllum og fyrrverandi útmörkuðum. Fólkið hér er í algjöru losti. Margir hafa bundið klúta fyrir vit sér, til að varna því að ryk fari í öndunarveginn og til að forðast lyktina af líkum annars fólks.”

Ekki er hins vegar öll von úti enn. Björgunarlið náði konu einni á lífi úr rústunum í dag. ,,Þetta er lítið kraftaverk,” segir Reinhard Riedl, eiginmaður konunnar, í samtali við fréttamann AP. Konan hafði verið föst í rústum lúxushótels í fimm daga.

Að sögn Sameinuðu þjóðanna eyðilögðust 80-90% húsanna í Leogane í skjálftanum. Maður einn sem lifði skjálftann af sagðist hafa komið til Haítí til að vera við jarðarför móður sinnar, en konan hans kom með honum og fórst í skjálftanum. Hann sagði að hingað til hafi fólkið í Leogane ekki fengið neina hjálp af neinu tagi. ,,Við höfum enga hjálp, ekkert,” sagði hann. „Engan mat, ekkert vatn, enga læknisþjónustu, enga lækna.”

David Orr, talsmaður Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna segir að óttast sé að mörg þúsund manns séu látnir á svæðinu við upptök skjálftans. „Næstum öll hús eyðilögðust hér. Herinn áætlar að hér séu 20-30 þúsund látnir.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, mun koma til Haítí í dag. SÞ hafa þegar óskað eftir því að ríki heims leggi þeim til 562 milljónir bandaríkjadala, til að ná að hjálpa þremur milljónum manna í sex mánuði eftir skjálftann. Talið er að tvær milljónir manna þurfi bráðaaðstoð strax, og þó svo hjálpargögn séu farin að berast í miklum mæli á flugvöllinn er erfitt að koma þeim til fólksins vegna erfiðra samgangna eftir skjálftann.

SÞ hafa varað við því að eldsneyti sem nota þarf við björgunarstörf og aðstoð verði uppurið í landinu eftir tvo til þrjá daga. Starfsmenn SÞ segja sumir við fréttamenn BBC, að á Haítí sé verið að takast á við hamfarir sem ekkert annað á starfstíma SÞ jafnist á við.

Nú hefur verið staðfest að að minnsta kosti þrír ráðherrar í ríkisstjórn landsins og allnokkrir þingmenn eru á meðal þeirra látnu. Forsætisráðherrann Jean-Max Bellerive hefur sagt að húsið hans hafi farið í rúst og nú búi hann í bílnum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert